Nokkrar staðreyndir um Matarstíg Helga magra

Alls eru 16 aðilar skráðir í Matarstíg Helga magra:

Brúnirhorse

Lamb Inn / Fimbul Café

Kaffi kú

Þórustaðakartöflur

 Ásar guesthouse

Hælið

Great view guesthouse

Holtsels Hnoss ehf

Esveit v/Smámunasafns

Hríshólsbúið ehf

Gæðaegg Hranastöðum

Sigríður Bjarnadóttir

Kvenfélagið Iðunn

Kvenfél. Aldan

Kvenfélagið Hjálpin

Litli-Dalur

Þetta eru bændur, veitingaaðilar, gististaðir og góðgerðarfélög.

Tilgangur og markmið Matarstígs Helga magra

Tilgangur: Tilgangur Matarstígs Helga magra er að búa til mataráfangastað í heimsklassa.

Markmið:

  • Að koma á samstarfi milli matvælaframleiðenda, veitingamanna og ferðaþjónustuaðila í Eyjafjarðarsveit.

  • Að auka tekjur þátttakenda.

  • Að stuðla að nýsköpun í matvælaframleiðslu og veitingaþjónustu.

  • Að byggja upp matartengda ferðaþjónustu.

  • Að skapa tækifæri fyrir bændur til að fullvinna afurðir sínar.

  • Að standa vörð um íslenskar matarhefðir og matarmenningu.

  • Að taka þátt í markaðssetningu afurða úr Eyjafjarðarsveit.

  • Að vera virkir þátttakendur í umræðum um sjálfbærni, umhverfismál og matarsóun.

  • Að skapa tengsl við samskonar verkefni erlendis.

Stjórn og verkefnastjórn

Matarstígur Helga magra var stofnaður formlega 3. mars 2020. Verkefnið hefur verið í undirbúningi síðan 2016 og verið á forræði Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar. Frá stofnfundi hefur Matarstígurinn hins vegar verið sjálfstætt félag.
Í stjórn voru kosin:
Einar Örn Aðalsteinsson formaður
Helga Berglind Hreinsdóttir
Hugrún Hjörleifsdóttir
Karl Jónsson
Kristín Thorberg

Markvert ehf sér um verkefnastjórnun í Matarstígnum og verkefnastjóri er Karl Jónsson.

Bændamarkaðir

Lagt var upp með metnaðarfull dagskrá fyrir árið 2020. En heimsfaraldurinn setti heldur betur strik í reikninginn hjá okkur eins og annarsstaðar. Við náðum þó að halda tvo svokallaða pop-up viðburði, eða uppsprettur og fjóra bændamarkaði. Tvennir markaðir voru haldnir í aðstöðu sem sveitarfélagið ljáði Matarstígnum við Hrafnagilsskóla og tvennir í Laugarborg. Velta markaðanna jókst jafnt og þétt og var tæplega ein milljón króna á þeim síðasta sem var haldinn. Við fundum fyrir miklum meðbyr og frábærum viðtökum við mörkuðunum og vonumst við til þess að geta eflt þá og stækkað 2021.

Vistvæn dreifileið

Sumarið 2020 var sett upp tilraunaverkefni sem við köllum Vistvæn dreifileið. Það hefur það að markmiði að koma vörum og framleiðslu bænda til kaupenda á eins vistvænan máta og hægt er. Höldur styrkir okkur um stóran hlut í leigu rafbíls sem fór á milli vikulega, sótti pantanir til framleiðenda og afhenti veitingaaðilum í Eyjafjarðarsveit. Þetta verkefni hefur vakið mikla athygli og nú er verið að vinna í því að tryggja fjármögnun þess áfram. 

Vefsölusíðan helgimagri.is

Til að tryggja íbúum svæðisins aðgang að vörum úr Matarstígnum ákvað stjórn Matarstígsins síðasta haust að setja upp söluvefsíðu þar sem neytendur gætu verslað sér vörur úr Eyjafjarðarsveit, beint af bændum. Var þessu verkefni flýtt vegna Covid-19 samkomutakmarkana sem settu bændamörkuðum okkar skorður. Gengið var til samninga við Þröst Guðmundsson hjá Vefmeistaranum á Akureyri um að hanna og þjónusta söluvefsíðu á slóðinni www.helgimagri.is. Síðan fór í loftið í nóvember. Viðtökur hafa verið mjög góðar, við höfum náð að kynna vefsíðuna vel og salan hefur farið þokkalega af stað. Við nýtum Vistvænu dreifileiðina til að koma vörum til kaupenda og erum með vöruafhendingu á Akureyri á föstudögum milli kl. 16 og 17. 

Áætlanir 2021

Starfsemin 2021 er í óvissu eins og svo margt annað. Þó eru nokkur atriði sem við munum leggja áherslu á í von um að ástandið í samfélaginu bjóði upp á það:

Bændamarkaðir. Við stefnum á að halda marga markaði á árinu bæði utan- og innan dyra. Skapa skemmtilega umgjörð og stemningu í kring um þá. 

Uppsprettiviðburðir. Þátttakendur munu setja upp viðburði í sínu nafni með fulltingi Matarstígsins, koma vörum sínum og þjónustu á framfæri.

Matarhátíð Helga magra í samvinnu við Handverkshátíðina. Stefnt er að því að Matarstígurinn verði virkur í matvælahluta hátíðarinnar með sölu og kynningar. Samhliða þessu verða veitingastaðir með sérstakar uppákomur og matseðla. 

Ef Local Food Festival sem halda átti í Hofi í október sl. verður haldin, mun Matarstígurinn vera þátttakandi þar.

Vistvæn dreifileið. Við ætlum að keyra á Vistvæna dreifileið í sumar með sendingum á milli framleiðenda og veitingaaðila í Eyjafjarðarsveit ásamt útkeyrsu á vörum úr vefverslun. 

Stefnt er á að halda aðalfund í febrúar. 

Samstarfsverkefni

Matarstígur Helga magra er stöðugt að leita að samstarfsaðilum til að framkvæma hin ýmsu matvælatengdu verkefni. 

©2020 by Matarstígur Helga magra. Proudly created with Wix.com