Spurt og svarað

Hér verður bætt við spurningum og svörum eftir því sem þörf er á.

Hvað græði ég á því að vera með í matarstígnum?

Matarstígurinn hefur sett sér fjölmörg markmið. Þeirra á meðal eru þau að auka tekjur þátttakenda. Það getur gerst með því að þátttakendur nýta sér bændamarkaðinn til að drýgja tekjurnar með sölu á sínum eigin afurðum. Það getur líka gerst með því að bændur selji sínar afurðir beint á betra verði en fæst annarsstaðar. Matarstígurinn mun leggja sitt af mörkum við að vekja athygli á matvælum sem framleidd eru í Eyjafjarðarsveit og leggja þannig sitt lóð á vogarskálarnar í markaðssetningu þeirra. Svo er matarstígsverkefnið líka skemmtilegt samfélagsverkefni sem glæðir sveitina okkar enn meira lífi. 

Ef ég hef áhuga á því að taka kjötið mitt heim og fullvinna vörur úr því, hvar get ég gengið í aðstöðu til þess?

Eitt af markmiðum matarstígsins er að vinna að því að sett verði upp lögleg aðstaða til að fullvinna afurðir. Þetta er hægt að gera með því að taka höndum saman við fleiri aðila á Eyjafjarðarsvæðinu. Hins vegar er lögleg aðstaða í Matarskemmunni á Laugum í Reykjadal þar sem hægt er að leigja tíma til ýmiskonar vinnslu á afurðum. Fyrirhugað er að fara í skoðunarferð þangað í mars/apríl 2020.

Hvað er burðarhráefni?

Burðarhráefni er það hráefni sem vegur þyngst í samsetningu rétta á matseðli. Sem dæmi, ef búa á til  nautasteik, er nautakjötið burðarhráefni og verður að koma úr Eyjafjarðarsveit. 

Ef ég ætla að búa til nautasteik eða annarskonar steik úr kjöti úr Eyjafjarðarsveit, en meðlætið sem ég vil nota í sveitinni er ekki framleitt í sveitinni, fellur þá rétturinn undir skilyrði matarstígsins? 

Já hann gerir það, því burðarhráefnið er úr Eyjafjarðarsveit. 

Er skylda fyrir veitingaaðila að kaupa það hráefni sem þeir þurfa og er framleitt í Eyjafjarðarsveit?

Já það er skylda. Við viljum efla hag matvælaframleiðenda og skapa okkur sérstöðu, því er það skylda að nálgast hráefni í réttina úr sveitinni, eigi á annað borð að nota þannig hráefni. T.d. verður ekki leyfilegt að bjóða upp á papriku frá öðrum framleiðanda en Brúnalaug, á meðan þeu geta annað eftirspurninni. 

Verð ég að taka þátt í þeim verkefnum sem matarstígurinn stendur fyrir? 

Hugmyndin er að setja fram í upphafi hvers árs verkefnalista yfir þau verkefni sem skylda verður að taka þátt í. Á árinu 2020 eru það bændamarkaðir, Pop-up viðburðir (reyndar valkvæðir), Matarhátíð Helga magra handverkshelgina og þátttaka í Local Food festival í október. Komi önnur verkefni til síðar, verður ekki hægt að skylda þátttakendur til að vera með. 

Hvernig leyfi þarf ég til að mega framleiða fyrir bændamarkaðinn?

Til að geta framleitt undir svokölluðum smáræðismörkum þarf framleiðsluleyfi sem sótt er um hjá Heilbrigðiseftirliti. Að auki þarf söluleyfi til að mega selja á markaðnum, en líklega getur matarstígurinn sjálfur verið með söluleyfið á sinni könnu sem allir rúmast undir. Þá þurfa framleiðendur að framvísa framleiðsluleyfi sínu á bændamörkuðunum. 

Get ég framleitt í eldhúsinu heima hjá mér og fengið framleiðsluleyfi?

Nei, heimaeldhús ganga ekki í þessu tilliti. Matarstígurinn er að leita leiða til að fá aðstöðu í þegar vottuðu eldhúsi sem smáframleiðendur geta fengið framleiðslutíma í. 

Hvernig aðstaða verður í boði á bændamarkaðnum? Þarf ég að vera með posa?

Sveitarfélagið ætlar að styrkja matarstíginn með því að setja upp veitingaaðstöðuna sem hingað til hefur aðeins verið nýtt á Handverkshátíðinni. Þar munum við hýsa bændamarkaðinn. Varðandi posa þá er það hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann verður með posa eða ekki. Einnig gætu nokkrir aðilar sameinast um einn posa og gert upp sín á milli úr honum. 

Þeir sem uppskera síðla sumars geta þeir tekið þátt í bændamörkuðunum? 

Það geta allir tekið þátt í þeim sem uppfylla skilyrði matarstígsins. Aðstaðan við íþróttamiðstöðina verður trúlega bara í boði fram að Handverkshátíð en það er fullur hugur á að finna aðra aðstöðu einmitt til að geta komið matjurtum og öðru sem er skorið upp síðla sumars á framfæri. 

Nú eru þessi verkefni sem hafa verið kynnt einkum sumarverkefni. Hver verður starfsemin yfir vetrartímann?

Verkefnastjórn hverju sinni ákveður hvaða starfsemi fer fram. Ein hugmynd er sú að sinna fræðslumálum yfir vetrartímann, halda námskeið, málþing og þess háttar. En líka taka þátt í mörkuðum eða halda þá sjálf. 

Ef það er skylda veitingaaðila í sveitinni að kaupa hráefni úr Eyjafjarðarsveit, hvernig er þá hægt að kaupa kjöt sem er lagt inn í afurðastöðvar?

Hugmyndin er sú að bændur leggi ekki allt kjöt inn í afurðastöðvarnar, heldur taki eitthvað heim, fullvinni og selji, eða selji óunnið. Hins vegar geta bændur leitað eftir samstarfi við afurðastöðvarnar um að taka frá hluta afurða sinna, til að geta tekið heim síðar og selt áhugasömum. Dæmi eru um að þetta hafi tekist vel en hafa verður fyrirvara á t.d. semja um þetta vel fyrir sauðfjárslátrun á haustin. 

Hvernig er hægt að nálgast vörur frá matvælaframleiðendum í sveitinni? 

Hvernig vörurnar eru afhentar er úrlausnarefni milli kaupanda og seljanda. Hins vegar er mikill áhugi á því að leita samninga við flutningafyrirtæki um að aka einu sinni í viku á milli framleiðenda og taka vörur til kaupenda hvort sem þeir eru í sveitinni sjálfri eða inni á Akureyri. Er mikill áhugi á að horfa til umhverfisvænna lausna í þeim efnum, eins og t.d. rafbíla. 

Ef mig vantar vörur sem eru framleiddar í sveitinni, en viðkomandi framleiðandi er ekki meðlimur matarstígsins, er samt skylda að kaupa af honum? 

Já samkvæmt þátttökuskilyrðunum verður að gera það. Ef þú ert þátttakandi í verkefninu verður þú að uppfylla skilyrðin.

Ef mig langar til að búa til pestó sem dæmi og nýta t.d. kerfil í það frekar en basiliku, uppfyllir það kröfurnar um innihald? 

Já, basilika er burðarhráefni í pestói og sé því skipt út fyrir jurt úr Eyjafjarðarsveit, fellur það undir skilyrðin. 

Verða náttúruafurðir eins og ber að vera tínd í sveitinni ef ég ætla að búa til bláberjasultu til að selja á bændamarkaði?

Já, það er skilyrði að öll burðarhráefni séu úr sveitinni hvort sem það eru afurðir bænda, eða ber og jurtir úr náttúrunni. 

©2020 by Matarstígur Helga magra. Proudly created with Wix.com