Search

Við erum að ná utan um allt ferliðÍ dag er að verða til frábært tækifæri fyrir okkur í Matarstígnum og aðra áhugasama um aukna verðmætasköpun og frekari úrvinnslu hefðbundinna landbúnaðarafurða.


Í fyrsta lagi býður Símey nú upp á Matarsmiðju Helga magra sem er í samvinnu við Matarstíginn. Þar er hægt að vinna að þróun og gerð eigin matvæla og læra um kjötvinnslu, ostagerð, sjálfbærni og matarsóun, um vélar og tæki og næringu, hreinlæti og örverur. Allt í sama ódýra pakkanum til að ná betri tökum á frekari úrvinnslu afurðanna.

Tímasetning: Kennt á mánudögum og fimmtudögum milli kl. 17:00 og 21:00

Hefst 18. janúar kl. 17:00 og lýkur 25. mars

Verð: 36.000

Skráning og nánari upplýsingar HÉR.


Í öðru lagi er nú vinna í gangi við að meta rekstrargrundvöll svokallaðs deilieldhúss þar sem áhugasamir geta leigt sér aðstöðu til að framleiða matvæli í vottuðu og öruggu umhverfi, jafnvel undir handleiðslu sérfræðinga. Einar Örn Aðalsteinsson á Kaffi kú, fékk styrk frá Matvælasjóði til að gera viðskiptaáætlun um uppsetningu á slíku eldhúsi. Gangi það allt saman eftir eins og vonir standa til um, verður hægt að leiga sér aðstöðuna til framleiðslu og vöruþróunar eigin framleiðslu.


Í þriðja lagi eru það söluleiðirnar sem Matarstígurinn býður upp á. Þar má fyrst nefna bændamarkaðina sem fjórum sinnum tókst að halda á síðasta ári þrátt fyrir ástandið í hinu Covid-smitaða samfélagi okkar. Velta þessara markaða jókst stig af stigi og ljóst að þarna er kominn góður vettvangur og arðbær fyrir framleiðendur að koma vörum sínum á framfæri. Í Bandaríkjunum þar sem þróun og starfsemi markaða af þessu tagi er í mjög háum klassa, hafa söluaðilar nýtt þá til að prufukeyra sínar vörur sem síðar meir hefur leitt til stofnunar heildsölu um vörurnar. Markaðirnir bjóða því upp á tækifæri til að eiga samtal við neytendur um nýjar vörur sem síðar meir geta farið í stærri framleiðslu og inn á stærri markaði.

Þá má nefna söluvefsíðu Matarstígsins á slóðinni www.helgimagri.is. Þar er hægt að setja vörur í umboðssölu og eru þær afhendar kaupendum einu sinni í viku.


Með þessu móti náum við utan um allt ferlið. Hér er framleiðsla á landbúnaðarafurðum, hægt er að sækja námskeið til að mennta sig í úrvinnslu þeirra, senn verður hægt að leiga sér löglega og vottaða aðstöðu í deilieldhúsi og að lokum eru söluleiðir fyrir hendi sem hægt er að nýta sér.


Námskeiðið er ekki bara fyrir þátttakendur í Matarstígnum heldur opið öllum sem áhuga hafa á að læra til verka.

45 views0 comments

©2020 by Matarstígur Helga magra. Proudly created with Wix.com