Search

Um fyrirhugaða bændamarkaði

Bændamarkaðir hafa verið afar vinsælir erlendis, haldnir í hverri viku og standa jafnvel í 2-3 daga í einu. Eins og nafnið gefur til kynna eru þetta markaðir fyrir bændur til að selja afurðir sínar. Víða erlendis er þetta afar stór og mikilvæg söluleið bænda. Margir þróa sölu sína á þessum mörkuðum og uppfæra svo viðskiptin yfir í birgjaumhverfið sem selur beint til smásöluaðila.


Hér á landi hafa þessir markaðir orðið sí vinsælli. Þeir hafa þróast í svipaða átt og víða erlendis að vera mikilvægur vettvangur fyrir sölu landbúnaðarafurða og afurða úr náttúrunni. Í það minnsta ágæt leið til að vekja athygli á framleiðslunni.


Matarstígur Helga magra mun standa fyrir bændamörkuðum á sumrin og verða fyrstu markaðirnir haldnir í sumar. Enn er verið að teikna upp tilhögun og ýmislegt í kring um markaðina og verður það kynnt síðar. Þó eru nokkur atriði sem eru komin á hreint og full ástæða til að kynna.


Í fyrsta lagi hefur sveitarfélagið ákveðið að setja upp veitingabásana sem venjulega eru settir upp fyrir handverkshátíðina, núna snemma sumars og verða þeir nýttir sem sölubásar. Í öðru lagi hefur sveitarfélagið í samvinnu við Hrafnagilsskóla ákveðið að bjóða skólaeldhúsið til afnota fyrir örframleiðendur innan matarstígsins sem hyggjast nýta sér bændamarkaðina sem söluvettvang. Hvort tveggja er gríðarlega mikilvægt fyrir þetta verkefni og mjög vel gert af hálfu sveitarfélagsins og skólans að leggja matarstígnum lið með þessu móti og kunnum við þeim að sjálfsögðu bestu þakkir fyrir. Nánari útfærsla á nýtingu skólaeldhússins verður unnin í samráði við skólann og kynnt innan tíðar.


Kosturinn við að nýta skólaeldhúsið er að það er vottað af hálfu Heilbrigðiseftirlitsins og því löglegt fyrir örframleiðslu eins og fyrirhuguð er þar. Aðstaðan verður til afnota fyrir þá meðlimi matarstígsins sem ætla að nýta sér bændamarkaðina sem vettvang fyrir sölu á afurðum úr Eyjafjarðarsveit líkt og þátttökuskilyrðin segja til um.


En allir þeir sem ætla að framleiða fyrir bændamarkaðina þurfa framleiðsluleyfi frá Matvælastofnun, MAST. Vegna aðstöðunnar í skólaeldhúsinu þurfa framleiðendur ekki að koma sér upp löglegri aðstöðu. Matarstígurinn verður svo með einskonar regnhlífarsöluleyfi fyrir alla þá sem ætla að selja á bændamörkuðunum. Með þessu móti hefur flækjustigið verið minnkað og fyrirhöfn framleiðenda gerð eins lítil og mögulegt er.

Matarstígurinn vill ná til allra sem framleiða vörur úr hráefnum sem finna má í Eyjafjarðarsveit. Við erum þar að horfa á þá sem gera sultur, hlaup og annað slíkt úr berjum og fleiru sem tínt er í sveitinni, við viljum ná til þeirra sem gera kæfur, rúllupylsur, olíur og fleira með burðarhráefni úr Eyjafjarðarsveit, líkt og þátttökuskilyrðin segja til um. Allt þetta verður hægt að vinna í skólaeldhúsinu og mögulega meira til.


Hvað aðrar afurðir varðar og stærri, eins og t.d. bjúgnagerð, þarf leyfi og sérstaka aðstöðu sem matarstígurinn hefur ekki upp á að bjóða enn sem komið er alla vega, en má finna t.d. í Matarskemmunni á Laugum í Reykjadal. Matarstígurinn áformar samstarf við Matarskemmuna um afnot af aðstöðunni þar en hún er leigð út fullbúin tækjum og tólum til stærri vinnslu.


Myndin sem skreytir pistilinn er tekin af Facebook síðu hins frábæra framleiðslufyrirtækis Milli fjöru og fjalla í Grýtubakkahreppi.

76 views0 comments

©2020 by Matarstígur Helga magra. Proudly created with Wix.com