Search

Á upphafsdögum matarstígsins

Það eru í raun forréttindi að fá tækifæri til að starfa við svona framsækið og skapandi verkefni sem Matarstígur Helga magra er. Á meðan allt er svona meira á vonarvöl, neikvæðar fréttir tröllríða samfélaginu og áhyggjur og angist eykst, er gott fyrir alla að hafa eitthvað jákvætt að bjástra við.


Allt frá því að talið barst að "matvælaklasa" sem þá var nefndur svo árið 2015, hefur þessi hugmynd að matarstígnum verið að gerjast, farið í gegn um mikla umræðu og kynningar og niðurstaðan er bara býsna vel skilgreint verkefni með kláran tilgang og markmið til að fylgja.

Það er mín skoðun að við getum skrifað svolítið söguna hér. Þó í grunninn hafi þetta verkefni orðið til á vettvangi ferðamálafélagsins og taldist þá til ferðaþjónustutengds verkefnis, hefur það þróast yfir í það að geta orðið atvinnuskapandi og sjálfbærnitengt verkefni til hagsbóta fyrir okkur öll hér í Eyjafjarðarsveit. Það er svo margt sem getur sprottið upp úr svona jarðvegi sem matarstígurinn er að leggja.


Við viljum að matarstígurinn sé örvandi fyrir skapandi hugsun og nýsköpun hvort sem það tengist matvælaframleiðslu, veitingum eða ferðaþjónustu almennt. Hann á að sameina okkur í þeirri viðleitni að gera sveitarfélagið okkar að enn betri búsetukosti en nú er, styðja við sprota og taka þátt í samfélagslegum verkefnum.


Er ekki kominn tími til að dusta rykið af vannýttum gróðurhúsum sveitarinnar? Rækta salat, blóm eða hvaðeina sem gleður okkur. Vorið er á næsta leiti, farfuglarnir eru að koma og við skulum reyna eins og við getum að líta jákvæðum augum á framtíðina og ekki hætta að skapa og hugsa í lausnum.


Það er um að gera að velta fyrir sér hvaða verkefni er hægt að staðsetja innan matarstígsins og hafa samband við okkur á netfanginu matarstigur@simnet.is, eða í síma 691 6633 fyrir kl. 16 á daginn.

20 views0 comments

©2020 by Matarstígur Helga magra. Proudly created with Wix.com